Markmið Tónabrúar er að bjóða upp á fjölbreytt íslenskunám fyrir börn af erlendum uppruna með samþættingu námsgreina. Þrenn markmið liggja þar undir, í fyrsta lagi að bjóða nemendum af erlendum uppruna upp á tónlistarnám, í öðru lagi að samþætta námsgreinar, tónlistar- og íslenskunám og í þriðja lagi að efla sjálfstraust nemenda.
Erla Guðrún og Þráinn Árni vinna náið saman og hver tími samanstendur af tónlistarkennslu sem Þráinn sér um og svo í framhaldi er unnið með sönglögin í íslenskutíma sem Erla Guðrún sér um. Nemendur koma einu sinni í viku í tónlistartíma og einu sinni í viku í íslenskutíma.
Nemendur kunna mismikið á hljóðfæri og mismikið í íslensku. Í Tónabrú kemur það ekki að sök, námið er aðlagað að hverjum nemenda. Sumir geta farið í gegnum mörg lög á meðan aðrir dvelja lengur við hvert lag. Það er ekki aðalatriði að gera sem mest heldur að hver og einn njóti sín og eflist og styrkist.
Þráinn Árni Baldvinsson útskrifaðist sem kennari árið 2010 og hefur kennt síðan árið 1999. Hann hefur áralanga reynslu af tónlistarkennslu m.a. við Gítarskóla Íslands og Tónlistarskóla Garðabæjar.
Þráinn hefur kennt nemendum af erlendum uppruna í starfi sínu bæði sem tónlistar- og grunnskólakennari.
Þráinn Árni Baldvinsson stofnaði tónlistarskólann Tónholt árið 2017. Í gegnum það starf hefur hann m.a. komið á laggirnar öflugu tónlistarstarfi í leikskólanum Rauðhóli og í grunnskólanum Norðlingaskóla auk þess kenna í framhaldsskólanum Borgarholtsskóla. Hann framleiddi söngþætti fyrir börn fyrir Stöð 2 árið 2020. Auk þess sem hann stofnaði hljómsveitina Skálmöld sem ásamt því að halda tónleika út um allan heim, hefur verið í fararbroddi að brydda upp nýjungar í miðlun tónlistar sem og nýta íslenskan sagnaarf í tónlistarsköpun.
Erla Guðrún Gísladóttir, fjölmenningarkennari er með B.A. próf í uppeldis- og menntunarfræði, er með kennsluréttindi með áherslu á fjölmenningu frá KHÍ og að auki tekið endurmenntunarnámskeið í fjölmenningu frá Háskóla Íslands.
Erla Guðrún hefur unnið sem fjölmenningarkennari og kennt börnum af erlendum uppruna íslensku frá árinu 2017.
Erla Guðrún hefur unnið að innleiðingu fjölmenningarlegra kennsluhátta í Norðlingaskóla frá árinu 2018. Þar hefur hún m.a. komið að því að gera aðgerðaráætlun í fjölmenningarmálum og fylgja henni eftir, kynna fjölmenningarlega kennsluhætti fyrir kennurum, koma upp gagnabönkum fyrir íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna.